Lífið

Fiskisúpa og sigling í einum pakka

Vertinn á Fjöruhúsinu Kristján Gunnlaugsson og Sigríður eiginkona hans töfra fram fiskisúpu og fleira góðgæti fyrir gesti.
Vertinn á Fjöruhúsinu Kristján Gunnlaugsson og Sigríður eiginkona hans töfra fram fiskisúpu og fleira góðgæti fyrir gesti. MYND/GVA

Fjöruhúsið á Hellnum er viðkomustaður margra þeirra sem leið eiga um Snæfellsnes. Það er ekki að ástæðulausu enda stemningin í húsinu einstök og umhverfið stórbrotið. Um er að ræða uppgert fiskverkunarhús sem í dag þjónar hlutverki kaffihúss. Nú hefur aðdráttarafl staðarins enn aukist eftir að eigendur Fjöruhússins, hjónin Kristján Gunnlaugsson og Sigríður Einarsdóttir, festu kaup á bát sem gestum gefst kostur á að leigja til siglingar um nágrennið.

"Þetta er búið að vera draumur í mörg ár," segir Kristján um ástæður þess að hann keypti bátinn sem er 9 metra langur spíttbátur af gerðinni Arctic Blue. "Ég keypti hann á sýningu í Noregi en hef lítið notað hann í sumar. Næsta sumar fer ég svo í þetta af alvöru," segir Kristján.

Á næsta ári eru tíu ár liðin síðan þau hjónin opnuðu Fjöruhúsið en á sínum tíma þótti mörgum óðs manns æði að opna kaffihús á þessum stað.

"Þetta þótti mikil heimska," segir Kristján og hlær. "Að vera með kaffihús sem enginn sér fyrr en hann er kominn upp að því. En við höfðum tröllatrú á þessu enda hefur alltaf verið mikill ferðamannastraumur hér niður í fjöruna. Reksturinn hefur alla tíð gengið ljómandi vel og gestafjöldinn eykst ár frá ári." Aðalsmerki Fjöruhússins hefur frá upphafi verið matarmikil fiskisúpa. "Uppskriftin er eitthvað sem konan bræddi saman í upphafi og hún sér enn um eldamennskuna. Súpan er alltaf vinsælust."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.