Erlent

Ímynd flestra af Írönum ekki rétt

Mótmæli við norska sendiráðið í Teheran.
Mótmæli við norska sendiráðið í Teheran. MYND/AP

Norska blaðakonan Line Fransson hjá Dagbladet, segir þá ímynd sem flestir hafi af Írönum, síður en svo rétta. Hún segir þó það hafa án efa bjargað sér að þykjast vera Íslendingur við sendiráð Dana í Teheran á dögunum.

Line var stödd í Svíþjóð þegar NFS náði sambandi við hana. Hún sagðist hafa verið á fjórða degi í Íransför sinni þegar hún var stödd í miðjum mótmælunum vegna skopmyndanna af Múhameð spámanni við Danska sendiráðið um helgina.

Hún sagðist efast um að hún væri á lífi ef hún hefði sagst vera norsk. Hópur fólks hafi komið til hennar og spurt hana hvaðan hún væri. Fólkið hafi sagt henni að það hefði drepið hana ef hún hefði verið Dani.

Line sagði óeirðirnar undanfarna daga ekki gefa rétta mynd af Írönum. Hún sé ákveðin í að fara aftur til Írans. Hún hefði ekki fundið fyrir eins mikilli reiði þar og virðist krauma annars staðar í Mið-Austurlöndum.

Line sagði fólk hafa komið til sín eftir mótmælin og sagst skammast sín fyrir það sem hefði gengið á. Það væri vissulega reitt vegna skopmyndanna en teldi ekki rétt að beita ofbeldi til að koma óánægju sinni á framfæri. Hún sagðist telja þetta almennt viðhorf Írana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×