Erlent

CIA hylmdi yfir með stríðsglæpamanninum Eichmann

Eichmann við réttarhöldin yfir honum í Tel Aviv þegar ísraelska leyniþjónustan hafði handsamað hann.
Eichmann við réttarhöldin yfir honum í Tel Aviv þegar ísraelska leyniþjónustan hafði handsamað hann.

Hulunni var í gær lyft af skjölum bandarísku leyniþjónustunnar frá því á árunum eftir stríð. Þar kemur meðal annars fram að CIA, hylmdi á sjötta áratugnum yfir með Adolf Eichmann, einum helsta skipuleggjanda helfararinnar, af ótta við að hann upplýsti um óþægilegar staðreyndir um háttsetta menn.

Adolf Eichmann fór huldu höfði eftir stríð til að sleppa við þá refsingu sem beið hans en ísraelska leyniþjónustan hafði þó loks upp á honum og var hann tekinn af lífi eftir réttarhöld í Tel Aviv. Nú hefur komið í ljós að bæði CIA og vesturþýska leyniþjónustan vissu hvar hann dvaldist í Argentínu og undir hvaða leyninafni hann gekk en gerðu ekkert í því, af ótta við að hann drægi fram í dagsljósið óþægilegar hliðar á Hans Globke, fyrrum nasista, sem þá var einn helsti ráðgjafi Adenauers, fyrsta kanslara Þýskalands. Einnig kemur fram að CIA hafi þrýst mjög á blaðamenn sem náðu tali af Eichmann, um að hafa ekki eftir honum neinar upplýsingar um Glopke, sem á sínum tíma var einn af aðstoðarmönnum Eichmanns.

Efnið sem nú hefur verið gert opinbert telur um 27 þúsund blaðsíður. Það er meðal skjala sem CIA hefur orðið að opinbera vegna laga sem sett voru í Bandaríkjunum árið 1999, og CIA mótmælti ákaft, um að öll leyniþjónustuskjöl sem sneru að stríðsglæpum nasista og japönsku ríkisstjórnarinnar skyldu gerð opinber.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×