Handbolti

Stjarnan stöðvaði Gróttu

Stopp. Leikmenn Stjörnunnar spiluðu gríðarlega fasta vörn í leiknum í gær og komust leikmenn Gróttu hvorki lönd né strönd, eins og þessi mynd ber með sér.
Stopp. Leikmenn Stjörnunnar spiluðu gríðarlega fasta vörn í leiknum í gær og komust leikmenn Gróttu hvorki lönd né strönd, eins og þessi mynd ber með sér.

Eftir að hafa sigrað í þremur fyrstu þremur deildarleikjum sínum brotlenti kvennalið Gróttu í Ásgarði í gær. Leikurinn var jafn og spennandi lengi vel en í síðari hálfleik keyrðu Stjörnustúlkur yfir gesti sína, skoruðu níu mörk í röð og sigruðu á endanum 35-28.

„Við náðum að loka vörninni í seinni hálfleik og sýndum það að við erum með meiri breidd. Það var bara frábær stemning í liðinu og við vorum með góða sóknarnýtingu. Einbeitingin var í lagi og það skilaði sér.

Sóknarleikurinn var í fínu lagi í fyrri hálfleik og í leikhléinu fór ég yfir varnarleikinn. Þá fengum við upp sterka vörn og markvarslan fylgdi með,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, í byrjun leiks var Stjarnan skrefinu á undan en Grótta komst í fyrsta skipti yfir 9-8 um miðbik fyrri hálfleiks. Þegar skammt var til hálfleiks var staðan jöfn 17-17 en Stjarnan skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks. Jafnræðið hélt áfram í byrjun síðari hálfleiks en þegar staðan var 23-22 skoraði Stjarnan níu mörk í röð og breytti stöðunni í 32-22.

Á þessum kafla réðust úrslit leiksins, Rakel Dögg Bragadóttir var sérlega atkvæðamikil í honum en hún skoraði alls tíu mörk í leiknum, þar af fimm úr vítaköstum. Alina Petrache, nýr leikmaður Stjörnunnar, átti einnig góðan leik og skoraði átta. Florentina Grecu varði á mikilvægum augnablikum ásamt því að skora eitt mark yfir endilangan völlinn. Sjö marka sigur Stjörnunnar staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×