Lífið

Hjólið góð tilbreyting

Þórólfur á danska götureiðhjólinu. Þórólfi finnst mun skemmtilegra að hjóla uppréttur en á fjallahjóli.
Þórólfur á danska götureiðhjólinu. Þórólfi finnst mun skemmtilegra að hjóla uppréttur en á fjallahjóli.

Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr og fyrrverandi borgarstjóri, sást á dögunum geysast um götur Reykjavíkur á reiðhjóli á leið til vinnu. Þórólfur segir það þó ekki vera regluna. Það kemur fyrir að ég hjóli til vinnu en veðráttan ræður oft úrslitum, segir hann. Það getur verið erfitt að búa sig að heiman þannig að maður sé rétt klæddur fyrir bæði veðrið og þær hefðir sem gilda um klæðnað á fundarsetum, bætir Þórólfur við og segist hafa vanmetið veðrið síðastliðinn miðvikudag.

Ég var held ég svolítið kómískur á leiðinni heim. Hjólandi í frakka í roki og rigningu, segir hann kíminn, en Þórólfur og kona hans fjárfestu í dönskum götureiðhjólum í vor. Á þeim getur maður setið uppréttur og horft í kringum sig, segir Þórólfur, það er mun skemmtilegra að hjóla á þeim en á fjallahjólum.

Aðspurður hvort hann hjóli í umhverfisverndarskyni segir Þórólfur reiðhjólið vera góða tilbreytingu við einkabílinn og finnst að Íslendingar mættu gera meira af því að hjóla. Það er umhverfisvænt, skemmtilegt og léttir á umferðinni, segir hann. Þegar ég var borgarstjóri gekk ég líka oft til vinnu, segir Þórólfur.

Samkvæmt Þórólfi eru kostir hjólreiða enn fleiri. Um daginn var maður að leita að mér í vinnunni. Hann sá að bílastæðið mitt var autt og dró þá ályktun að ég væri ekki við, segir Þórólfur. Þeir sem vilja fela sig í vinnunni ættu því að hjóla, bætir hann sposkur við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.