Lífið

Minnst sem hetju

Fjölskylda irwins Ekkjan Terri, ásamt börnunum þeirra tveimur, Bindi og hinum tveggja ára Bob.
Fjölskylda irwins Ekkjan Terri, ásamt börnunum þeirra tveimur, Bindi og hinum tveggja ára Bob. MYND/nordicphotos/gettyimages

Rúmlega fimm þúsund manns voru viðstaddir minningarathöfn um ástralska „krókódílafangarann“ Steve Irwin, sem lést fyrir tveimur vikum.

Athöfnin var haldin í heimaríki hans, Queensland, og var sjónvarpað um alla Ástralíu.

John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, hélt ræðu þar sem hann sagði að Irwin hefði kennt fólki að elska og virða allar dýrategundir, bæði stórar og smáar. „Hann færði Áströlum og heiminum öllum betri skilning á náttúrunni,“ sagði Howard.

Meðal þeirra sem mættu á athöfnina voru leikararnir Russell Crowe, Kevin Costner og Cameron Diaz.

Átta ára dóttir Irwins, Bindi, hélt hjartnæma ræðu þar sem hún minntist föður síns. „Pabbi minn var hetja. Hann var alltaf til staðar fyrir mig,“ sagði hún. „Ég vil ekki að ástríða pabba taki enda. Ég vil hjálpa dýrategundum sem eru í útrýmingarhættu, rétt eins og hann gerði.“

Sjávarkönnuðurinn Jean-Michel Cousteau, sem var ekki viðstaddur athöfnina, syrgði Irwin en var ekki sáttur við aðferðir hans. „Hann stökk á dýr, greip þau, hélt þeim og sýndi hlutina á mjög dramatískan hátt,“ sagði hann. „Þetta selst og margir heillast af þessu en mér finnst þetta misvísandi. Þú átt ekki að snerta náttúruna, heldur horfa bara á hana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.