Lífið

Karnivalísk ádeila í reiðhöll

Reiðhöll rúmar þjóðarsál. Einleikhúsið setur upp karnivalískt spunaverk.
Reiðhöll rúmar þjóðarsál. Einleikhúsið setur upp karnivalískt spunaverk. MYND/Stefán

Einleikhúsið setur upp spunaleikritið Þjóðarsálina nú á haustdögum en ekki dugir minna en stærðarinnar reiðhöll til að rúma þá sál. Hópur fimm atvinnuleikara undir stjórn leikstjórans Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur hefur skapað sýninguna út frá spurningunni um þessa meintu þjóðarsál og er þar unnið með viðhorf Íslendinga og tekið á ýmsum sammannlegum löstum og dyggðum.

Þetta kann að vera í fyrsta sinn sem fyrrum þarfasti þjónn landsmanna tekur með virkum hætti þátt í íslenskri leiksýningu en í sýningunni verður háþróaðri leikhúsvinnu steypt saman við sirkus­kúnstir, dans og áhættuatriði hesta auk þess sem hestakonur úr hópnum Hrossabandið munu troða upp og syngja. Fjöldi aukaleikara og dansara kemur að sýningunni, meðal annars kraftajötnar og fegurðardísir. Samkvæmt tilkynningu frá leikhópnum munu gestaleikarar og söngvarar líka setja svip sinn á sýninguna, jafnvel heimsþekktir aðilar, en eins og gefur að skilja verður gefið mikið rými fyrir hið óvænta í sýningunni.

Á dögunum skrifuðu forsvarsmenn Einleikhússins undir samstarfssamning við Landsbankann sem mun styrkja þessa karnivalísku ádeilu en áætluð frumsýning hennar er 8. október.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.einleikhusid.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.