Lífið

Kalli Tomm með súpergrúppu

Einvalalið Birgir Haraldsson, Jóhann Ásmundsson, Nikulás Róbertsson, Sigurgeir Sigmundsson, Karl Tómasson, Magnús Stefánsson, Ágúst B. Linn og Hilmar Gunnarsson munu halda uppi stuðinu í Hlégarði á laugardaginn.
Einvalalið Birgir Haraldsson, Jóhann Ásmundsson, Nikulás Róbertsson, Sigurgeir Sigmundsson, Karl Tómasson, Magnús Stefánsson, Ágúst B. Linn og Hilmar Gunnarsson munu halda uppi stuðinu í Hlégarði á laugardaginn.

Karl Tómasson, trommuleikari og forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ, hefur safnað saman góðum vinum og hljóðfæraleikurum sem munu leika saman í Hlégarði á laugardagskvöldið. „Þessi dansleikur er haldinn í tilefni af bæjarhátíðinni Í túninu heima, sem haldin er annað árið í röð í Mosfellsbæ.

Það er hefð fyrir því að foreldrafélagið Þrumur og Eldingar, sem er starfrækt í kringum yngri flokkastarfið í fótbolta hjá Aftureldingu, haldi öflugan dansleik einu sinni á ári í bæjarfélaginu. Að þessu sinni er sú uppákoma komin inn í þessa hátíð," segir Karl og bætir því við að bæjarfélagið muni iða af lífi alla helgina enda verði boðið upp á glæsilega dagskrá úti um allan bæ.

„Undirbúningur hátíðarinnar hefur staðið lengi og það verður allt lagt í sölurnar." Karl stóð sjálfur fyrir því að safna saman tónlistarmönnum fyrir dansleikinn en grunnurinn að hljómsveitinni eru félagar hans úr Gildrunni. „Svo koma náttúrlega Hilmar og Gústi úr Hljómi, sem er vinsæll gítardúett í bæjarfélaginu. Magnús Stefánsson, trommuleikari Utangarðsmanna og Egó, verður með okkur en hann hefur alltaf verið einn af mínum uppáhaldstrommuleikurum.

Einnig eru í hljómsveitinni Jóhann Ásmundsson úr Mezzoforte, Nikulás Róbertsson úr Paradís og Start auk aðalsöngvara kvöldsins, Birgis Haraldssonar úr Gildrunni," segir Karl en það er ljóst að einvalalið tónlistarmanna verður á sviðinu í Hlégarði á laugardagskvöldið.

„Það verður nú einhver hreyfing á sviðinu þar sem við erum svo margir að við verðum væntanlega ekki allir á sviðinu í einu. Annars erum við búnir að æfa vel fyrir kvöldið og ég lofa hörkudansleik þar sem allir ættu að heyra eitthvað við sitt hæfi. Við verðum að mestu með lög frá hinum og þessum hljómsveitum en auðvitað tökum við einhverja gamla og góða Gildrusmelli."

Karl segir stóra dansleiki haldna ótrúlega sjaldan í Mosfellsbæ. „Almennt er þó mjög góð mæting meðal heimamanna þegar þeir eru haldnir en það er eins hér og annars staðar að skemmtanalífið hefur færst meira inn á pöbbana." Þess má geta að á bæjarhátíðinni, sem mun standa alla helgina, verða meðal annars markaðir, brenna, brekkusöngur, kjúklingaveisla og vegleg flugeldasýning. Hápunktur helgarinnar verður þó án efa ballið í Hlégarði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.