Innlent

Kerfi sem kannski aldrei verður notað

Borgarráð samþykkti 20. júní 2002 að innleiða svokölluð Smartkort hjá Reykjavíkurborg. Í kjölfar samþykktarinnar var undir­ritaður samningur vorið 2003, á milli Reykjavíkurborgar, Strætó bs. og Smartkorta hf., um þróun Smartkortakerfis.

Enn bólar ekkert á kerfinu í almennri notkun þremur árum síðar, en heildarkostnaður við þróun kortakerfisins var kominn upp í rúmar 109 milljónir króna um síðustu áramót. Áætlað er að kostnaðurinn verði orðinn um hundrað og þrjátíu milljónir króna í lok þessa árs.

Hingað til hefur Reykjavíkurborg borið helming kostnaðarins við þróunarverkefnið, eða rúmar 54 milljónir króna. Þar af hafa 85 prósent af hlut Reykjavíkurborgar komið frá Íþrótta- og tómstundasviði, sem sinnir æskulýðsmálum borgarinnar.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir framtíð verkefnisins óljósa. Ég vil að það verði farið yfir stöðuna eins og hún er núna, hvað hefur áunnist og í hvað peningarnir hafa farið og hversu langt við eigum í land að þessi kort skili borgarbúum einhverjum ávinningi, segir Gísli Marteinn. Ef það er mjög langt sem verkefnið á í land og á að kosta margar milljónir í viðbót, finnst mér að við verðum að skoða málið alveg frá grunni.

Smartkort er ný tegund greiðslukorta sem eru án segulrandar, en innihalda þess í stað örgjörva sem geymir upplýsingar. Kortin átti að nota til að greiða fargjald í strætó og fyrir aðgang að sundstöðum borgarinnar.

Þar til gerður búnaður var keyptur og prófaður í einhverjum tilfellum hjá sundstöðum borgarinnar.

Strætó bs. hefur, að sögn Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra, lokið við uppsetningu á kortabúnaði í vögnum sínum. Fjárfesting Strætó bs. í búnaðinum er um hundrað milljónir króna, að sögn Eiríks, og því er fyrirtækið búið að fjárfesta í verkefninu fyrir liðlega 150 milljónir króna. Eiríkur segir að kostnaður hafi verið töluvert meiri en reiknað var með í upphafi.

Björn Hermannsson hjá Gagna­prisma, sem hefur haft verkefnastjórn yfir verkefninu undanfarið, segir verkefnið í eðlilegum farvegi. Þetta er búið að vera þróunarverkefni og hefur tekið sinn tíma, enda um nýjung að ræða. Hann segist vongóður um að kerfið verði tekið í notkun í haust í áföngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×