Viðskipti innlent

Ekki friðvænlegt í Straumi

Yfirtökunefnd mun skoða hvort yfirtökuskylda kunni að hafa myndast í Straumi-Burðarási eftir að félag Björgólfsfeðga og tengdir aðilar eignuðust meirihluta í Gretti, sem er einn stærsti hluthafinn í Straumi. Samson Global Holding, annað félag Björgólfsfeðga, heldur þessu til viðbótar utan um fimmtungshlut í Straumi.

Þetta eru hefðbundin vinnubrögð hjá nefndinni að kanna slíkt þegar aðilar nálgast yfirtökumörk en þau liggja við fjörutíu prósenta eignarhlut.

Með þessum kaupum hefur staða stjórnarformannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar styrkst innan Straums og ljóst að hann hefur myndað öflugt bandalag með Sundsmönnum sem eiga mann í stjórn Straums. Heimildarmenn telja ólíklegt að friður skapist í bráð innan hluthafahóps Straums en Björgólfur Thor og Magnús Kristinsson, varaformaður stjórnar, hafa eldað grátt silfur saman.

Jafnframt vaknar upp sú spurning hvort TM verði áfram skráð á markaði eftir að Sund seldi þriðjungshlut sinn til Blátjarnar, félags sem er að langmestu leyti í eigu Björgólfsfeðga og Sunds. Ekki er talið ólíklegt, samkvæmt heimildum Markaðarins, að áframhaldandi skráning félagsins, sem er eina tryggingafélagið á markaði, verði íhuguð gaumgæfilega eftir þessi viðskipti en hugur stjórnenda TM stendur til þess að vera áfram á markaði eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hjá Óskari Magnússyni, forstjóra TM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×