Viðskipti innlent

Skrif Danske Bank illa grunduð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, gagnrýnir harðlega rangfærslur Danske Bank.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, gagnrýnir harðlega rangfærslur Danske Bank.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir skrif Danske Bank um íslenskt efnahagslíf að mörgu leyti illa grunduð og í þeim rangfærslur sem komi á óvart.

„Svo eru dregnar af þeim rangfærslum niðurstöður sem til að mynda snúa að almennum efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar eru mjög miklar skekkjur svo sem í samanburði sem ekki á rétt á sér við hluti sem eiga að hafa gerst forðum tíðar. Til að mynda það sem sagt er um væntanlegan viðskiptahalla þar sem dregin er kúrva fram á við. Þar eru menn algjörlega á röngu róli og eins náttúrlega í spám varðandi útflutningstekjur á næsta ári. Inn í þá mynd er ekki tekið að þá hefst útflutningur á áli frá nýjum verksmiðjum,“ segir Davíð og áréttar að í greinargerð Danske Bank séu margar staðreyndarvillur.

„Vont er að greinargerðin hafi jafnmikil áhrif hér og raun ber vitni, en hún er þeirrar gerðar að hún ætti ekki að gera það,“ segir Davíð og vísar til þess að þegar skýrslan kom út á þriðjudag lækkaði gengi bæði krónunnar og hlutabréfa í Kauphöll Íslands.

„Við erum dálítið undrandi á þessari framsetningu allri. Sjálfsagt verður markaðurinn að dæma hvernig hann tekur þessu, en vegna þess hversu gölluð hún er og misvísandi ætti hún ekki að hafa áhrif á markaðinn hér til lengri tíma.“

Davíð segir ekki hafa verið tekna um það ákvörðun í Seðlabankanum hvort brugðist verði sérstaklega við neikvæðum skrifum á borð við greinargerð Danske Bank.

„Við höfum ekki eltst við skrif af þessu tagi, en við höfum auðvitað samband við okkar kollega, til dæmis í Danmörku, og látum okkar sjónarmið í ljós. Hins vegar brennur heitast á bönkunum sjálfum að svara þessu, en varðandi almenn atriði sem snúa að hinu efnahagslega umhverfi viljum við gjarnan að afstaða okkar komi skýrt fram og vænti ég þess að ársfundi bankans eftir fáeina daga komi fram upplýsingar sem sýni að þarna eru menn á villigötum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×