Innlent

Vilja ríkisstofnanir til Akureyrar

Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga hefur óskað eftir viðræðum við sjávarútvegsráðherra um flutning á meginstarfsemi Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunarinnar til Akureyrar og er KEA tilbúið að greiða kostnaðinn við flutninginn. KEA hefur einnig ákveðið að rita iðnaðarráðherra og einkavæðingarnefnd bréf þar sem óskað verði eftir viðræðum um kaup á Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR). Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, segir félagið tilbúið að leggja fram hundruð milljóna króna vegna flutnings Fiskistofu og Hafrannóknastofnunarinnar til Akureyrar og kaups KEA á ÍSOR. Andri segir kostnaðinn við flutning á Fiskistofu einni og sér á bilinu 50 til 100 milljónir króna. "Við vitum ekki hver kostnaðurinn er við að flytja starfsemi Hafrannsóknastofnunar til Akureyrar og heldur ekki hvað ríkið vill fá fyrir Íslenskar orkurannsóknir en velta félagsins er um hálfur milljarður króna. Allar þessar þrjár stofnanir eru núna með starfsemi bæði á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri en við teljum að hægt sé að vinna mörg verkefni á þeirra vegum betur frá Akureyri og með minni tilkostnaði," segir Andri. Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, fagnar framtaki KEA. „Með tilliti til byggðaáætlunar get ég ekki séð hvernig ríkið getur slegið á þessa hönd. Opinberum störfum á Akureyri fækkaði um níu í fyrra og ef stjórnvöld þiggja ekki þessa fjármuni frá KEA þá hefur varla verið mikil alvara á bak við byggðaáætlunina þar sem segir að unnið verði að flutningi opinberra starfa og verkefna til Akureyrar," segir Magnús Andri Teitsson segir að auðveldlega megi flytja fleiri ríkisstofnanir til Akureyrar. "Hagstofu Íslands mætti vandalaust flytja til Akureyrar. Hér er töluvert af lausu skrifstofuhúsnæði og því mun húsnæðisekla ekki setja strik í reikninginn varðandi flutning opinberra stofnana til Akureyrar," segir Andri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×