Innlent

Alnæmissmit eykst á Norðurlöndum

Tala þeirra sem greinast með HIV smit í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur farið hækkandi og er aukningin mest meðal samkynheigðra karlmanna og tvíkynheigðra. Sóttvarnalæknir segir þróunina ekki þá sömu hér á landi en ástæða sé til að ítreka notkun smokksins. Í danska dagblaðinu Berlinske Tidende segir í dag að fleiri hommar og tvíkynheigðir hafi greinst HIV smitaðir á síðast ári en nokkru sinni áður. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir fólk úr þessum hópi einnig hafa verið að greinast í auknum mæli í Noregi og Svíþjóð en hann segist ekki hafa séð þessa aukningu hérlendis og að embættið vildi gjarnan hafa það þannig áfram og losna við aðra smitbylgju meðal samkynhneigðra eða annarra. Á síðasta ári og árin þar á undan hafa verið að greinast 5 til 6 smitaðir á ári, hér á landi. 10 til 12 greindust hins vegar smitaðir þegar ástandið var einna verst. Haraldur sagði að ekki væri hægt að sjá enn hvernig þetta ár kæmi út, en í fyrra greindust fimm smitaðir. Hann sagði skiptinguna hafa verið jafna milli gagn- og samkynhneigðra en þó heldur meira hjá gagnkynhneigðum.   Alnæmisfaranldurinn í Afríku hefur náð hámarki og smituðum hefur fjölgað mikið í Asíu og Austur Evrópu. Segir þessi aukning í löndunum í kringum okkur að fólk líti ekki á alnæmi jafn alvarlegum augum og áður. Haraldur sagði aukninguna geta bent til þess að samkynhneigðir hafi ekki sama varann á sér og áður og að gagnkynhniegðir eigi einnig að huga að þessu. Hann benti á að dreifa ókeypis smokkum og reka áróður fyrir notkun hans væri gott framtak hjá þeim sem að átakinu standa. Að greinast með HIV smit er ekki sami dauðadómur og það var áður fyrr. Lækning við sjúkdómnum er þó ekki til, þótt hægt sé að halda honum niðri með lyfjum í flestum tilfellum. Þá getur lyfjagjöfin verið erfið vegna aukaverkanna auk þess sem hún er mjög kostnaðarsöm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×