Erlent

Taugatitringur við Persaflóa

Mikill taugatitringur er meðal Vesturlandabúa í Persaflóaríkjunum eftir að breskur maður lét lífið í sjálfsmorðsárás í Katar í morgun. Óttast er að hryðjuverkasamtökin al-Qaida standi á bak við árásina og að þetta sé aðeins byrjunin. Árásarmaðurinn sem var frá Egyptalandi ók bíl hlöðnum sprengiefni inn í leikhús í höfuðborginni Doha. Verið var að sýna Þrettándu nóttina eftir Shakespeare og margir í salnum voru útlendingar. Enn hefur engin lýst ábyrgð á hendur sér en böndin berast sterkt að al-Qaida, ekki síst vegna þess að aðeins eru tveir dagar síðan einn forsvarsmanna samtakanna hvatti menn til að gera árásir á vestræn skotmörk á Persaflóasvæðinu. Stjórnstöð Bandaríkjahers í Persaflóastríðinu er í Katar og enn eru um tvö þúsund bandarískir hermenn í landinu auk mikils fjölda óbreyttra bandarískra þegna. Bretar eru líka fjölmennir í Katar eða um fimm þúsund. Hryðjuverk hafa verið fátíð í Katar og þetta er í fyrsta sinn sem sjálfsmorðsárás er gerð í þessu litla, olíuríka landi þar sem aðeins búa um 850 þúsund manns. Bandaríkjastjórn sendi reyndar frá sér viðvörun í síðustu viku og hvatti fólk til að vera á varðbergi vegna hugsanlegra árása í tengslum við þau tímamót að nú um helgina eru tvö ár liðin frá innrásinni í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×