Erlent

Tuttugu fórust í eldsvoða í París

Tuttugu manns fórust í eldsvoða í París þegar hótel brann til kaldra kola aðfaranótt föstudagsins. Ríflega fimmtíu slösuðust í brunanum sem er einn sá versti í sögu borgarinnar á síðari tímum. Hotel Paris-Opera er einnar stjörnu hótel í níunda hverfi höfuðborgarinnar. Það er á sex hæðum og höfðu borgaryfirvöld leigt nokkur herbergi fyrir flóttamenn frá Afríku sem biðu þess að komast í betri húsakynni. Laust eftir klukkan tvö í fyrrinótt kom upp eldur á fyrstu hæð hótelsins og er talið að hann hafi kviknað í eldhúsi þar sem framreiða átti morgunverð. Logarnir breiddust út á svipstundu og vöknuðu margir gestanna upp við vondan draum þegar þeir urðu reyks og hitans varir. Mikil skelfing greip um sig og gripu margir til þess ráðs að stökkva út um glugga en einhverjir flúðu upp á þak. Maður sem býr í næsta húsi við hótelið sagðist hafa vaknað við hróp og síðan sá hann þrjá stökkva út um glugga, þar á meðal konu og barn. "Þau lágu bara á gangstéttinni og hreyfðu sig ekki. Allir voru að æpa og fólk lá í götunni." Slökkvilið kom fljótlega á vettvang og tók það rúma klukkustund að ná tökum á eldinum. 250 slökkviliðsmenn voru á staðnum þegar mest var og höfðu þeir í nógu að snúast. Einn þeirra vann hetjudáð þegar hann óð inn í eldhafið og bjargaði ungabarni sem grét þar fyrir innan. Í dögun var ljóst að tuttugu manns hefðu beðið bana í brunanum og rúmlega fimmtíu hefðu slasast, þar af ellefu alvarlega. Ekki er vitað um þjóðerni hinna látnu en mörg börn eru þeirra á meðal. Í hópi hinna slösuðu eru Frakkar, Bandaríkjamenn, Senegalar, Túnisar og Úkraínumenn. Að sögn fréttaritara BBC í París hafa spurningar þegar vaknað um öryggismál hótelsins. Aðeins einn útgangur er á byggingunni og þar er engan brunastiga að finna enda er slíkur búnaður ekki skylda í gömlum húsum. Jacques Chirac, Frakklandsforseti og fyrrverandi borgarstjóri í París, sagðist harmi sleginn vegna atburðarins og Dominique de Villepin innanríkisráðherra heimsótti brunastaðinn í gærmorgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×