Sport

Benitez styður Gerrard

Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool segist standa fast á bak við Steven Gerrard, fyrirliða liðsins, sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu vikum. Gerrard hefur átt við erfið meiðsli að stríða undanfarið og hefur barist við þráláta orðróma um að hann gangi til liðs við Chelsea á næstu leiktíð. Nú síðast brenndi fyrirliðinn af vítaspyrnu gegn Tottenham um síðustu helgi, sem vó þungt í jafntefli liðsins og gæti átt eftir að verða liðinu dýrkeypt í keppninni um sæti í Meistaradeildinni að ári. Benitez hefur nú komið fyrirliða sínum til varnar og segist styðja hann í einu og öllu þrátt fyrir mótbyrinn að undanförnu. "Steve hefur orðið fyrir nokkru mótlæti á leiktíðinni, en hann er mikill keppnismaður og sterkur karakter og ég hef engar áhyggjur af honum. Það eina sem hann vill gera er að vinna leiki og hann leggur sig alltaf 100% fram, sama hvort það er í leikjum eða á æfingum. Ég get ekki ætlast til meira af honum. Það eina sem ég hef áhyggjur af með Gerrard er að hann haldist heill út leiktíðina, en ég er viss um að lukkan fer að detta hans megin," sagði spænski knattspyrnustjórinn, sem hefur náð frábærum árangri með liðið í vetur þrátt fyrir mikil meiðsli í herbúðum félagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×