Innlent

Lyf send heim í tvo áratugi

"Heimsendingarþjónusta apóteka hefur tíðkast síðan 1982, þetta byrjaði í Laugavegsapóteki sem er núna Lyfja við Laugaveg," segir Þorbergur Egilsson, rekstarstjóri Lyfju, um fréttir af Lyfjaveri, fyrsta apóteki sem sérhæfir sig í heimsendingarþjónustu. "Lyfja hefur frá upphafi sent lyf heim til fólks og þetta eru því engin ný tíðindi," segir Þorbergur. Lyfjaver býður upp á ókeypis heimsendingarþjónustu en að sögn Þorbergs tekur Lyfja 420 krónur fyrir þjónustuna. "Við tókum upp gjaldið fyrir nokkrum mánuðum en munum fella niður gjald af heimsendingu til lífeyrisþega," segir Þorbergur. Lyfjastofnun kannar nú hvort heimsendingar Lyfjavers standist ákvæði í lyfjalögum, sem kveða á um að sjúklingur veiti lyfjunum viðtöku í lyfjabúð og séu lyf send lengri eða skemmri veg skal afhending vera í höndum þjálfaðs starfsfólks. Þorbergur segir að þar sem Lyfja sé með útibú úti á landi séu það ávallt þjálfaðir starfsmenn sem afhenda lyfin. "Athugasemdir Lyfjastofnunar lúta að því þegar þriðji aðili, til dæmis póstþjónusta, tekur að sér afhendinguna," segir Þorbergur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×