Erlent

Blair kynnir loforð sín

Verkamannaflokkurinn kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir þingkosningarnar sem haldnar verða eftir þrjár vikur. Mikil áhersla er lögð á stöðugleika í efnahagsmálum en einnig er harðari stefna í innflytjendamálum boðuð. "Ég trúi því að þetta þjóðfélag sé betra, sterkara og réttlátara í dag en það var þegar við tókum við stjórnartaumunum af íhaldsmönnum árið 1997. Við getum hins vegar gert miklu meira," sagði Tony Blair, forsætisráðherra Breta, þegar hann kynnti stefnuskrána í Lundúnum í gær, umkringdur samráðherrum sínum. Hann sagði einnig að kosningarnar nú væru hans síðustu. Stefnuskráin er allþykk, 112 blaðsíður, og ber yfirskriftina "Bretland: áfram, ekki afturábak." Efnahagsmálin eru þar í öndvegi en einnig er dágóðu máli varið í innflytjenda- og menntamál. Flokkurinn lofar að á kjörtímabilinu verði tekjuskattur ekki hækkaður og matvæli, barnaföt, bækur og ýmislegt fleira verði áfram undanþegin virðisaukaskatti. Herör er skorin upp gegn glæpum og óspektum í stefnuskránni. Þar er jafnframt lagt er til að tekið verði upp punktakerfi að ástralskri fyrirmynd fyrir innflytjendur og að nafnskírteini með lífsýnum verði tekin upp í skrefum á kjörtímabilinu. Áfram verður unnið að friði í Mið-Austurlöndum og breskar hersveitir verða í Írak svo lengi sem Írakar óski þess sjálfir. Blair sagði ennfremur að breytingum á lávarðadeildinni yrði framhaldið. Leiðtogar íhaldsmanna og frjálslyndra fundu stefnuskránni flest til foráttu eins og búast mátti við. Sir Menzies Campell, talsmaður frjálslyndra í forföllum Charles Kennedy sem fæddist sonur í fyrradag, sagði að kjósendur ættu að dæma Verkamannaflokkinn eftir verkum hans en ekki loforðum. Nýjustu skoðanakannanir benda til að ríkisstjórn Blair haldi velli í kosningunum. Samkvæmt könnun MORI-fyrirtækisins sem gerð var í gær fær Verkamannaflokkurinn 39 prósent atkvæða, íhaldsmenn 35% og frjálslyndir 21%



Fleiri fréttir

Sjá meira


×