Erlent

Íhuga þarf refsiaðgerðir

"Alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og stórtæk brot gegn mannréttindum hafa átt sér stað. Þetta má ekki viðgangast," sagði Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, um stöðu mála í Darfur. Hann sagði að öryggisráðið verði að íhuga beitingu refsiaðgerða gegn Súdan vegna ástandsins. Orð sín lét Annan falla á fundi leiðtoga Afríkuríkja í Abuja, höfuðborg Nígeríu. Hann sagði að innbyrðisdeilur ríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefðu orðið til þess að enn hefði ekki verið gripið til aðgerða. Það þyrfti að breytast. Kofi Annan tók nýlega við nýrri skýrslu nefndar sem átti að rannsaka hvort þjóðarmorð hefði átt sér stað í Darfur og leggur hana fljótlega fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Aðspurður hvort nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að þjóðarmorð hefði verið framið svaraði Annan: "Óháð því hvernig nefndin lýsir því sem á sér stað í Darfur leikur enginn vafi á því að þar hafa verið framdir alvarlegir glæpir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×