Sport

Hann verður að hætta sjálfur

Stjórn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni mun aldrei reka knattspyrnustjórann Sir Alex Ferguson. Þetta lét Sir Bobby Charlton hafa eftir sér á dögunum en hann er sem kunnugt er fyrrum leikmaður sem situr nú í stjórn United. Liðið tapaði gegn Everton í fyrrakvöld, 1-0, og þarf því að bíta það í sig að enda í þriðja sæti deildarinnar annað árið í röð. Charlton lét það lítið á sig fá og sagði að ef leiðir United og Ferguson myndu skilja myndi Skotinn knái ákveða það sjálfur. "Það er ekki í deiglunni að segja samstarfi United og Ferguson lokið. Hann er besti og sigursælasti knattspyrnustjóri Englands og því sjáum við engin rök fyrir því að lát láta kappann fara," sagði Charlton sem bætti því við að leiktíðin í ár hefði verið sérstök að því leytinu til að Chelsea hefði eytt miklu af peningum. "Ef Chelsea hefði ekki notið við þá hefðum við hæglega getað landað titlinum."David Gill, framkvæmdastjóri United, sagði á dögunum að hægt væri að láta Ferguson taka pokann sinn. Aðspurður varðandi það mál vildi Gill lítið gera úr því og fullyrti að umsögn hans hefði verið tekin úr samhengi. Áhangendur United geta því andað léttar, enda ekki útlit fyrir annað en að Ferguson verði um kyrrt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×