Innlent

26 ára karlmaður dæmdur fyrir kynferðisbrot

26 ára karlmaður var á þriðjudag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 8 mánaða fangelsi og til greiðslu 400.000 króna í miskabætur fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku.

Maðurinn kynntist stúlkunni á spjallrás textavarps Sjónvarpsins í desember í fyrra en hann var þá 25 ára gamall. Eftir nokkur samskipti á textavarpinu og síðar í gegnum SMS skilaboð hittust þau og keyrði maðurinn með stúlkuna upp í Öskjuhlíð þar sem hann hafði mök við hana. Maðurinn bar því við að hann hafi talið að stúlkan væri 14 ára en samkvæmt útskrift á skilaboðum þeirra á milli er ljóst að mati dómsins að maðurinn vissi aldur stúlkunnar frá upphafi. Einnig þykir dómnum ljóst að maðurinn hafi átt frumkvæði að samskiptum þeirra.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi ítrekað reynt að komast í kynni við ungar stúlkur á netspjallinu og villt á sér heimildir. Maðurinn var dæmdur í 8 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Eins var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 400.000 krónur í miskabætur sem og sakarkostnað að upphæð 498.058 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×