Innlent

Hryggð í bland við feginleika

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, heldur ræðu á minningarathöfn á Flateyri í kvöld.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, heldur ræðu á minningarathöfn á Flateyri í kvöld.

Minningarnar brjótast fram á Flateyri segir Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands sem er komin þangað vegna minningarathafnar um að tíu ár eru liðin síðan snjóflóð féll á Flateyri og varð tuttugu íbúum að bana.

Frú Vigdís segist finna til hryggðar vegna atburðanna fyrir tíu árum og feginleika yfir því að staðurinn hafi náð sér að nokkru leyti eftir þennan mikla harmleik. Vigdís segir að sér hafi þótt mjög vænt um að heimsækja minnisvarðann sem hefur verið reistur um þá sem létust í flóðinu. Hún segir minnisvarðanum hafa verið haganlega komið fyrir og hann sé fallegur að því leyti að það sé stór steinn úr fjallinu sem sé settur niður fyrir framan kirkjuna. "Heimamenn komu auga á að hann lítur út eins og engill," segir Vigdís. Á minnisvarðanum hafa verið rituð nöfn og fæðingardagar þeirra sem létust í snjóflóðinu.

 

Flóðið lenti á nítján húsum þar sem fjörutíu og fimm einstaklingar höfðust við. Tuttugu létust og stór hluti Flateyrar var rústir einar. Magnea Guðmundsdóttir var oddviti á þessum tíma og ein margra sem vöknuðu upp við að mannskætt snjóflóð hafði fallið á þorpið hennar. Hvernig er að vakna við slíkt? "Ég get svarað þessu þannig að það var skelfilegt, að sjálfsögðu, en líka svolítið óraunverulegt. Þetta hefði getað verið draumur...en var ekki."

 

Atburðanna verður minnst á samkomu í íþróttahúsinu á Flateyri klukkan átta og á sama tíma verður minningarathöfn í Neskirkju í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×