Erlent

Kosningar í Írak á morgun

Eftir blóðugt stríð og hryðjuverk í meira en tvö ár vona íröksk stjórnvöld og hersetuveldin að morgundagurinn marki tímamót en hvers eðlis þau verða er með öllu óvíst á þessari stundu. Stjórnarskráin er ýmist talin marka upphaf tímabils friðar og lýðræðis, eða upphaf endalokanna. Götur Bagdad í dag voru eins og hvern annan dag nema árásir voru óvenju fáar. Ástæða þess er hert öryggisgæsla í aðdraganda kosninga um stjórnarskrá á morgun. Öryggissveitir eru allstaðar, landamærin eru lokuð og flestar búðir líka. Það á að koma í veg fyrir að uppreisnar- og hryðjuverkamenn fái tækifæri til að undirbúa illvirki á morgun, eins og þeir hafa hótað. Spennan er ekki einungis þess vegna, heldur er deilt hart um stjórnarskrárdrögin sjálf. Stjórnarskránni var ætlað að verða grundvöllur lýðræðisríkis í Írak og sameiningartákn, en það er ekki víst að það takist. Vandamálið er í raun þrískipting landsins. Fyrir norðan eru það einkum Kúrdar sem búa, Sítarnir eru fyrir sunnan og 25% þjóðarinnar sem eru Súnnítar búa í miðju landsins. Súnnítar eru ekki hrinfir af þrískiptingunni vegna þess að náttúruauðævin eru mest á svæðum Síta og Kúrda, Súnítarnir eru því skildir eftir í miðjunni. Súnnítar óttast að þessi þrískipting leiði til þess að landið klofni í þrjú ríki, verði stjórnarskráin samþykkt á morgun Súnnítarnir eru einnig ósáttir við vísun til íslamskra laga í stjórnarskránni og ýmislegt fleira. Þrátt fyrir andstöðu þeirra er talið líklegast að stjórnarskráin verði samþykkt, þó að tölfræðilega nægi andstaða Súnníta til að fella hana. Tveir þriðju hlutar kjósenda í þremur héruðum verða að fella stjórnarskrána, þá telst hún fallin á landsvísu. Súnnítar hafa meirihluta í fjórum héruðum, en til að fella stjórnarskránna þurfa þeir að kjósa og það er viss sigur fyrir lýðræðislega ferlið, segir Philip S. Kosnett í sendiráði Bandaríkjanna hér á landi. Hann starfaði áður í Írak. Philip segir að kosningarnar á morgun verði skref framávið, hvort sem stjórnarskráin verður samþykkt eða ekki. Hann minntist þess að Bandaríkin hefðu fengið sjálfstæði árið 1776 en það hafi ekki verið fyrr en 1787 sem Bandaríkin fengu nothæfa stjórnarskrá. Philip segir að það muni alltaf einhver gagnrýna úrslit kosninganna, hver sem úrslitin verði. Það sem skipti þó máli sé að Írakar séu að ræða um sjálfstæðið og það sé vísir að lýðræði. Ekki færri en fjörutíu og fjórir voru drepnir í árásum þegar kosið var til þings í janúar, og það þótti vel sloppið. Í desember verður svo kosið á ný til þings verði stjórnarskráin samþykkt og er talið líklegt að þær kosningar verði til þess að auka enn frekar á spennunna á milli ólíkra þjóðernis- og trúarhópa í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×