Viðskipti innlent

Slippstöðin hefur starfsemi á ný

Starfsemi hefst að nýju í Slippstöðinni á Akureyri á þriðjudag og verður nýtt hlutafélag stofnað um reksturinn í dag. Að baki væntanlegu hlutafélagi standa tveir starfsmenn Slippstöðvarinnar auk fyrirtækja og einstaklinga á Akureyri. Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri er annar þeirra. Hann segist bjartsýnn á framhaldið og vonast til þess að geta ráðið alla starfsmenn gömlu Slippstöðvarinnar í vinnu auk fjölda fleiri. „Það er þó ekki ljóst enn hve marga við munum geta ráðið strax, enda ræðst það af þeim verkefnum sem við getum aflað okkur á næstu dögum og vikum, til viðbótar við þau verk sem þegar eru í vinnslu," segir hann. Anton vill ekki að svo stöddu gefa upp hvaða fyrirtæki komi að hlutafélaginu. Aðspurður segir hann að þau fyrirtæki sem áður áttu í viðræðum um endurreisn Slippstöðvarinnar, séu ekki í þeim hópi. „Maður veit samt aldrei, þau eru velkomin líka," segir hann. Hann segir að þrátt fyrir að illa hafi farið fyrir fyritækinu óttist hann ekki framhaldið. Helst beri að varast að taka þátt í áhættuverkefnum. „Rekstur í skipaiðnaði hefur gengið ágætlega. Það var því miður aðeins eitt verkefni sem keyrði reksturinn í kaf," segir hann. Á laugardag slitnaði upp úr viðræðum Kaupfélags Eyfirðinga, Sjafnar fjárfestingarfélags og Sandblásturs og málmhúðunar við skiptastjóra þrotabús Slippstöðvarinnar á Akureyri um endurreisn Slippstöðvarinnar, að sögn Sigmundar Guðmundssonar skiptastjóra. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir að menn hafi einfaldlega ekki náð saman um kaup og kjör. „Við höfum svo sem engan einkarétt á samningum við skiptastjóra og ég fagna því að verið sé að semja við nýjan aðila," segir Halldór. „Aðalatriði er að þessi rekstur fari í gang á ný. Það er það sem við vorum að vinna að." Aðspurður segir Halldór ekki útséð um það að KEA komi aftur að málinu. „Ég veit svo sem ekki hvað gerist í framhaldinu og vil ekki útiloka neitt í þeim efnum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×