Innlent

Útgáfa atvinnuleyfa eftir helgi

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að nú eftir helgina verði hafin vinna til að veita atvinnuleyfi handa einhverjum af þeim Kínverjum sem Impregilo hefur sótt um leyfi fyrir. Næstu mánuðina verði það stöðug vinna að fara yfir umsóknir og samráðsferli sé hafið þar sem Vinnumálastofnun og Impregilo hittist hálfsmánaðarlega til að yfirfara umsóknir og meta stöðuna varðandi áframhaldandi ráðningar og útgáfu á leyfum. Tvöhundruð umsóknir um atvinnuleyfi hafi borist frá Impregilo og fleiri eigi eftir að koma. Því sé greinilega nokkuð um laus störf. "Við höfum verið að pressa á það að fyrirtækið leiti að íslensku eða evrópsku vinnuafli í þessi störf. Það hafa þeir gert og munu halda áfram á þeirri leið." Gissur segir að auglýsing í Morgunblaðinu hafi skilað um 18 umsóknum, af þeim hafi um tugur verið ráðinn. Þá hefur Vinnumálastofnun hafi farið yfir þær umsóknir sem Impregilo bárust frá Evrópu. Þetta dugi ekki til að ráða í þessi 200 störf og því verði að leita til þriðju landa. Nánast ekkert sé um að íslenskir iðnaðarmenn sæki um störf. Íslenskir og evrópskir umsækjendur verði ráðnir, ef þeir uppfylla hæfisskilyrði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×