Lífið

Dagsbirtulampar við þunglyndi í FÁ

Fjölbrautaskólinn við Ármúla ræðst gegn skammdegisþunglyndi. Keyptir hafa verið dagsbirtulampar fyrir nemendur og starfslið skólans með það að markmiði að fara úr eymdinni í ljósið. Svo góð hafa viðbrögðin verið að dæmi eru um að fólk hafi grátið ef það kemst ekki að lömpunum. Rannsókn sem nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla tóku þátt í á síðasta ári sýndi að upp undir helmingur nemenda verður var við einkenni skammdegisþunglyndis, eins og atorkuleysi, depurð, bráðlyndi, félagsfælni, kvíða, mikla löngun í sætindi og skerta framtakssemi svo fátt eitt sé nefnt. Hlutfallið var mun hærra en búist var við og í kjölfarið var fjárfest í þremur lömpum sem hefur verið komið fyrir á bókasafni skólans, en rannsóknir hafa sýnt að reglubundin ljósameðferð getur stundum spornað við þessum algenga sjúkdómi. Guðrún Narfadóttir, kennslustjóri Ármúlaskóla, segir að birtumeðferðin sé góð leið og ef hún láti fólki líða betur og komi í veg fyri lyfjanotkun sé það frábært. Guðrún segir að frá því að lamparnir hafi verið settir upp í byrjun árs hafi færri komist að en vilja. Það hljóta að geta talist góð viðbrögð að biðraðir hafa myndast á bókasafninu, en viðbrögðin við því að komast ekki í ljósameðferð hafa heldur ekki látið á sér standa. Guðrún segir að ein kona hafi brostið í grát vegna þess að hún hafi ekki komist að. Hugmyndin sé þó ekki að snúast upp í andhverfu sína. Guðrún telur að fólk sæki ekki í lampana nema það finni fyrir breytingu og breytinga sé að vænta, ef þær verði á annað borð, eftir fimm daga í meðferð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.