Innlent

Segir lög um fóstureyðingar brotin

Sektarkennd, martraðir og átta mánaða andlegt niðurbrot voru afleiðingar fóstureyðingar ungrar konu fyrir tveimur árum. Hún segir að lög um fóstureyðingar séu þverbrotin hér á landi. Í umræðu um fóstureyðingar í Íslandi í dag í gær fullyrti Katrín Fjeldsted læknir að hér væri mjög vel tekið á móti konum sem óskuðu fóstureyðingar. Hún sagði að þegar kona sækti um fóstureyðingu þyrfti hún að hafa uppáskrift tveggja aðila, annaðhvort tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa. Þessir aðilar sinntu sínum verkefnum mjög vel. Ung kona sem á eitt barn fyrir hafði samband við fréttastofu Stöðvar 2 þegar eftir þáttinn. Hún gekkst undir fóstureyðingu fyrir tveimur árum og segir engan veginn að farið sé að lögum. Hún lýsir reynslu sinni á þann hátt að hún hafi farið til læknis og fengið þungunina staðfesta rétt fyrir helgi. Læknirinn hafi sagt henni að hringja í ritarann sem hún hafi gert og daginn eftir hafi hún mætt í aðgerðina. Þ Þegar konan mætti var henni vísað á legubekk þar sem hún beið grátandi þess sem verða vildi. Hún segir að hún hafi grátið fleiri tárum en nokkurn tíma áður. Svæfingalæknirinn hafi því spurt hana hvort hún væri viss um að hún vildi eyða fóstrinu og hún hafi svarað játandi. Þegar konan vaknaði næst var allt yfirstaðið og þá kom í ljós að hún hafði gengið með tvíbura. Hún segir að hjúkrunarkona hafi þá komið og klappað á lærið á henni eins og hún hafi verið í minni háttar aðgerð, sem hafi ekki sömu sálfræðilegu áhrif. Hún hafi þá strax brostið í grát. Hún fór heim síðar sama dag en raunum hennar var engan veginn lokið. Næstu átta mánuði átti hún í miklu sálarstríði. Hún segir martraðirnar hafa verið verstar. Hana hafi dreymt að hún hafi fengið sónarmyndir af tvíburunum og eitt sinn hafi þau verið í krukku þar sem hún hafi átt að þroska þau. Þar hafi fóstrin verið í lófastærð og hún hafi verið í eilíu stríði við að bjarga þeim. Hún segir síðasta draum sinn hafa verið á þá leið að hún hafi verið með tvíburana á lóð fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hún hafi reynt að grafa þá og þá hafi hendur og fætur komið upp aftur. Hana hafi dreymt þetta þrjár eða fjórar nætur en í síðasta skiptið hafi hún náð öðru barninu og farið með það inn á sjúkrahús þar sem því hafi verið bjargað og því hafi verið gefið nafn. Hún segist hafa verið þjökuð af sektarkennd og skömm og fannst hún ekkert geta leitað. Hún segist aldrei hafa heyrt meira í læknum eða öðru starfsfólki sjúkrahússins. Eftir svona reynslu hljóti það að eiga að vera þannig að einhver bendi stúlkum á hvert þær geti leitað eða hvert sé næsta skref, sérstaklega í tilvikum eins og hennar. Sumum finnist þetta kannski ekki erfitt en hún hafi litið á sig sem morðingja í átta mánuiði á eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×