Erlent

Höfðu verið þvingaðar til vændis

Breska lögreglan frelsaði í gærkvöldi nítján konur, flestar frá Austur-Evrópu, sem var haldið nauðugum á nuddstofu í Birmingham, en talið er að þær hafi verið þvingaðar til að stunda vændi.  Konurnar, sem voru meðal annars frá Lettlandi, Tyrklandi, Póllandi, Japan og Hong Kong, höfðu verið á nuddstofunni um nokkurt skeið. Fjölmennt lið bresku lögreglunnar réðst til atlögu á nuddstofuna í gærkvöldi og voru fertug bresk kona og þrír karlmenn handtekin í tengslum við málið vegna gruns um mansal og skipulagða vændisstarfsemi. Lögreglan hefur vegabréf kvennanna í sinni vörslu en þær voru lokaðar inni á nuddstofunni í Birmingham á kvöldin og enn fremur haldið nauðugum þar á daginn þannig að þær fengu aldrei að yfirgefa húsnæðið. Þrír viðskiptavinir nuddstofunnar voru einnig handsamaðir og voru byssur, sem fundust á staðnum, gerðar upptækar. Lögreglan í Bretlandi segir að ungar stúlkur, gjarnan frá Austur-Evrópu, séu lokkaðar til landsins á fölskum forsendum. Talið er að konurnar sem lögreglan frelsaði í gærkvöldi hafi mátt þola ofbeldi af hálfu eigenda nuddstofunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×