Erlent

Töf á aðildarsamningum við Tyrki?

Abdullah Gul, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í gær að samninganefnd Tyrklands í fyrirhuguðum aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði ekki send til að hefja viðræðurnar nema henni berist fyrst skjalið sem geymir samningsumboð ESB. "Enginn getur ætlast til þess af okkur að fara til Lúxemborgar áður en við fáum að sjá samningsumboðið," sagði Gul, en hann á að verða formaður samninganefndar Tyrkja. "Auðvitað er hugsanlegt að viðræðurnar hefjist ekki," sagði Gul en bætti við að "allt yrði reynt" til að jafna ágreining svo að unnt verði að standa við áformin um að hefja viðræðurnar á mánudag. Utanríkisráðherrar ESB munu á sunnudag halda bráðafund um málið eftir að fastafulltrúum ESB-ríkjanna 25 mistókst að ná samkomulagi um samningsumboðið í gær, en í því skal kveðið á um samningsgrundvöll ESB í hverjum málaflokki fyrir sig. Fulltrúar Austurríkis hafa staðið í vegi fyrir að skjalið sé afgreitt, en þeir vilja að Tyrkjum séu boðin náin tengsl við sambandið en ekki full aðild. Tyrkneskir ráðamenn hafa hins vegar ítrekað lýst því yfir að það þýði ekki að bjóða þeim neitt annað en fyrirheit um fulla aðild. Innan Evrópusambandsins er líka útbreidd óánægja með að Tyrkir skuli enn neita að viðurkenna Kýpurstjórn, en gríski hluti eyjarinnar gekk í ESB í fyrra, og að þeir sýni ekki neinn vilja til að viðurkenna fjöldamorð hers Tyrkjasoldáns á Armenum á árunum 1915-1922, en í mörgum Evrópuríkjum hafa þau verið skilgreind sem þjóðarmorð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×