Erlent

Íbúar Texas flýja

Bílaröð sem er nærri jafnlöng og allur vegkaflinn milli Reykjavíkur og Stykkishólms hefur myndast utan við Houston, þar sem fólk flýr fellibylinn Rítu. Algjör ringulreið ríkir, enda hreyfist röðin nánast ekkert. Bensínið í nágrenni borgarinnar er á þrotum og margir hafa skilið bensínlausa bíla sína eftir og tekið til fótanna. Þrátt fyrir þetta er fólk hvatt til að fara burt úr borginni, og leitað hefur verið aðstoðar hersins við að koma bensíni á svæðið.Takist ekki að leysa úr málum hið snarasta er hætt við að þúsundir manna verði enn fastir á hraðbrautum þegar Ríta geysist yfir svæðið og þar með í bráðri lífshættu. Á þriðju milljón manna hefur þegar yfirgefið heimili sín á Texas-svæðinu, þar sem búist er við Rítu seint í kvöld. Það er þó enn mögulegt að Texas sleppi að mestu, því stefna Rítu hefur breyst lítillega. Aðeins hefur dregið úr krafti hennar og er hún nú orðinn fjórða stigs fellibylur, en var í gær fimmta stigs bylur. Hún á þó enn eftir að fara yfir mjög hlýjan sjó og sérfræðingar telja mögulegt að kraftur hennar gæti við það aukist aftur. Rita er þegar farin að draga úr hagvaxtarspám vestanhafs, í kjölfar hrakspánna vegna Katrínar. Jafnframt er spáð aukini verðbólgu eitthvað í átt við það sem varð á áttunda áratugnum, meðal annars vegna hækkandi olíuverðs. Áhrifin munu ná víðar um heiminn þar sem bandaríska hagkerfið er hið lang stærsta í heiminum. Reyndar er þegar farið að gæta vaxandi verðbólguþrýstings í Evrópu, og minnkandi hagvaxtar víðast hvar á Evru svæðinu, en sú þróun var byrjuð áður en fellibyljirnir komu til sögunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×