Viðskipti innlent

Kaupa meira í French Connection

Baugur Group hefur eignast tíu prósenta hlut í tískuverslunarkeðjunni French Connection. Verðmæti hlutarins er um þrír milljarðar króna. Breska félagið hefur átt undir högg að sækja undanfarna mánuði vegna minnkandi sölu, eins og margar smásölukeðjur, og dróst hagnaður þess saman um 69 prósent á fyrri helmingi ársins samanborið við árið áður. Hagnaður fyrir skatta var rétt um sex hundruð milljónir króna. Tekjur félagsins drógust einnig saman um átta af hundraði; voru um 13,3 milljarðar. Bref French Connection hækkuðu í kjölfar uppgjörsins, en markaðurinn átti von á slöku uppgjöri auk þess sem kaup Baugs hafa haft áhrif til hækkunar. Óljóst er hvert stefnir með þessa fjárfestingu Baugs en Stephen Marks, stofnandi fyrirtækisins, á ríflega fjörutíu prósent í félaginu. Ljóst er að Baugur mun ekki taka félagið yfir nema með hans samþykki. Marks þykir hafa staðnað og fyrirtækið lítið gert annað upp á síðkastið en að lifa á fornri frægð. Ýmis tækifæri eru talin liggja í rekstrinum. Annað af tvennu er talið líklegast. Annað hvort kaupi Marks fyrirtækið sjálfur af markaði á hærra verði en nú eða að hann vilji selja sig út. Ekki er talið líklegt að Baugur muni kaupa fyrirtækið með hann við stjórnvölinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×