Erlent

Byggja ferðaþjónustu á Ingólfi

Íbúar í Dalsfirði í Noregi ætla að nota frægð Ingólfs Arnarsonar til að byggja upp ferðaþjónustu fyrir Íslendinga á heimaslóðum fyrsta landnámsmanns Íslands. Oddviti sveitarfélagsins vill fá íslensk stjórnvöld til samstarfs um að byggja upp Íslandshús á staðnum þar sem Ingólfur yfirgaf Noreg. Dalsfjörður er með fegurstu fjörðum Noregs, umgirtur háum fjöllum á beggja vegu, með skógivöxnum hlíðum sem skreyttar eru tignarlegum fossum.. Þarna steypist hinn magnaði Laukelands-foss niður 150 metra hátt hamrabelti og fyrir botni fjarðarins rennur áin Gaula til sjávar í breiðum fossi við höfðingjasetrið Ós. Þegar ekið er út með firðinum norðanverðum rekast Íslendingar á kunnuglegt kennileiti. Jú, þar er styttan af Ingólfi Arnarsyni, raunar afsteypa af styttunni á Arnarhóli. Íslendingar gáfu norsku þjóðinni styttuna en Ásgeir Ásgeirsson forseti afhjúpaði hana árið 1961. Henni var valinn staður í Rivedal, sem Íslendingar nefna gjarnan Hrífudal, en á bæjartúninu stendur bautasteinn sem sagan segir að Ingólfur hafi reist þegar hann yfirgaf Noreg til að setjast að á Íslandi. Þótt ekki séu til ritaðar heimildir um að Ingólfur hafi komið frá bænum Hrífudal er fólkið þar ekki í neinum vafa. Sunneva Rivedal, íbúi í Hrífudal, segir að sú saga hafi fylgt þeim frá blautu barnsbeini að Ingólfur hafi komið frá Hrífudal, lagt í haf frá þeim stað og verið fyrsti landnámsmaður Íslands. Tengsl þeirra við Ísland hafi myndast vegna þess að forfeður þeirra hafi lagt upp í för þangað frá staðnum. Spurð hvort hún sé viss um að Ingólfur hafi verið frá Hrífudal segirst Sunneva alveg viss. Forvitnir Íslendingar eru tíðir gestir í Hrífudal og þeim er iðulega vel fagnað af bóndanum, Kjell Ask. Í félagsheimili sveitarinnar eru veggir skreyttir myndum sem tengjast sameiginlegri sögu Íslands og Noregs. Nú vilja heimamenn nýta frægð Ingólfs til uppbyggingar. Sunneva segir að Íslendingar hafi komið til Hrífudals til að skoða styttuna af Ingólfi og sjá bautasteininn. Þetta hafi ekki verið skipulagt svo það hafi verið unnið að því að undanförnu að skipuleggja það betur. Áformað er að bjóða upp á leiðsögn um svæðið, veitingasölu þar sem gestir fái að bragða á þjóðlegum réttum úr héraðinu, fólkið í Hrífudal vill byggja upp gistiaðstöðu og jafnvel safn. Aud Kari Steinsland, oddviti Askvoll-byggðar, segir íbúa á svæðinu sjá fyrir sér að þetta skapi ný atvinnutækifæri og treysti vináttuböndin milli Íslendinga og Norðmanna. Því vaknar sú spurning hvort hér sé ekki einmitt verkefni fyrir Íslendinga, kannski stjórnvöld, að byggja upp Íslandshús einmitt á þeim stað sem Ingólfur sigldi frá. Aud Kari segir að hugmyndinni um Íslandshús hafi verið varpað fram á síðastliðnum vetri og íbúum á svæðinu hafi fundist hún frábær. Þeir vilji gjarnan bjóða Íslendingum að taka þátt í því að byggja slíkt hús í Hrífudal, það yrði glæsilegt. Samvinna er hafin milli norskra og íslenskra aðila um að skipuleggja menningartengda ferðaþjónustu, byggða á sameiginlegri sögu frændþjóðanna. Sú saga snýr ekki aðeins að landnámstímanum heldur einnig síldarsögunni, en upphaflega voru það Norðmenn sem hófu síldveiðar á Íslandsmiðum og kenndu Íslendingum að veiða og verka síld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×