Innlent

Pakkaði niður og lagði á flótta

"Þegar við heyrðum að fellibylurinn væri kominn upp í fimmtu kategoríu pökkuðum við bara saman, læstum húsinu og fórum," segir Elín Jóhanna Svavarsdóttir. Hún býr í New Orleans en lagði á flótta ásamt meðleigjanda sínum í fyrradag og hélt áleiðist til Houston þar sem þau munu halda til hjá vinum. "Það tók okkur um fjórar klukkustundir að komast úr borginni og við vorum fimmtán klukkustundir að keyra til Mississippi-ríkis en það væri alla jafna aðeins fjögurra tíma keyrsla," útskýrir hún. Um milljón einstaklingar voru þá á flótta frá borginni. "Svo er fullt af fólki sem neitar að fara, ég á til dæmis eina vinkonu sem situr enn sem fastast í borginni. Ég reyndi að fá hana með mér en ekkert gekk. Nú sé ég mest eftir að hafa ekki bara tekið hana með." Elín gerir fastlega ráð fyrir því að hún flytji frá borginni. "Það er svo mikið af verksmiðjum umhverfis borgina og ef til flóða kemur verður mengunin gríðarleg, svo er jafnvel búist við því að borgin verði vatns- og rafmangslaus í vikur eða jafnvel mánuði svo líklega verður maður nú að flytja, því miður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×