Innlent

Kærustupar selur græjur á netinu

Vefverslunin portus.is tók nýlega til starfa en í gegnum hana er hægt að kaupa hljómtæki af ýmsum stærðum og gerðum. Eigendur portus.is eru kærustuparið Drengur Óla Þorsteinsson og Jóna Benný Kristjánsdóttir sem búsett eru á Höfn í Hornafirði. Þaðan er Jóna Benný en Drengur Óla er ættaður frá Þórshöfn á Langanesi. "Ég bjó í Svíþjóð og fylgdist með miklum uppgangi í allri vefverslun, ekki síst með hljómtæki," segir Drengur Óla sem lengi hefur haft áhuga á allra handa græjum. Þegar hann fluttist til Íslands á ný kannaði hann hvernig ástatt væri á net-hljómtækjamarkaðnum og afréð í framhaldinu að opna vefverslun með Jónu Benný. "Ég varð mér úti um tölvukerfi og hafði samband við framleiðendur og úr varð portus.is," segir Drengur Óla. Vörumerkin sem þau skötuhjúin bjóða til kaups eru fæstum Íslendingum vel þekkt en þau eru til dæmis kínversku tækin CAV og Xindak, Yamakawa frá Þýskalandi og MarcusCables og Dynavoice frá Svíþjóð. Drengur Óla efast ekki um gæði þessara tækja og fullyrðir að í sumum tilvikum sé um sömu vöru að ræða og seld er í verslunum á Íslandi undir öðrum vörumerkjum. "Kína er að verða helsta framleiðsluland heimsins og næstum öll raftæki eru framleidd þar. Og oft eru sömu tæki smíðuð fyrir mismunandi vörumerki." Drengur Óla segir þau Jónu Benný geta boðið mjög hagstætt verð því vörurnar fari til kaupanda nánast milliliðalaust frá verksmiðjunni. Þau taka þó sitt eins og gengur. Vörunum verður dreift með Póstinum og segist Drengur Óla verða mjög svekktur ef þær berast ekki kaupendum einum til tveimur sólarhringum eftir viðskiptin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×