Innlent

Ánægður með stöðumælana

Margir kaupmenn við Laugaveginn eru að mestu ánægðir með stöðumælakerfið í Reykjavíkurborg þar sem það kemur í veg fyrir að stæðin fyllist til lengri tíma. Þeir eru þó spenntir að sjá hvernig tekst til með klukkukerfið á Akureyri. Eins og fram kom í Fréttum Stöðvar 2 í gær, er klukkukerfið svo kallaða ekki fýsilegur kostur fyrir Reykjavíkurborg að mati Önnu Kristinsdóttur borgarfulltrúa, þar sem ekki sé þörf á að bæta nýtingu bílastæða í borginni. Hún sagði stöðumælakerfið, eins og það er í dag, vera í hag verslunarrekenda á Laugaveginum og þessu er Bolli Kristinsson, kaupmaður, sammála og hann segir að á þessu séu vissulega agnúar og t.d. mætti lækka örlítið sektirnar en sagði að á heildina liti væri þetta gott kerfi. Það hfur vissa róteringu og til þess gert að starfsmenn og íbúar fylli ekki stæðin og viðskiptavinurinn komist ekki að. Ef klukkukerfið, sem Akureyringar hafa tekið upp í stað stöðumælagjalda, yrði tekið upp í Reykjavík hafa menn velt fyrir sér hvort starfsmenn verslana myndu notfæra sér aðstöðu sína og stilla klukkuna alltaf upp á nýtt þegar tíminn rynni út. Svona gætu þeir lengt tímann sem bílnum væri lagt án þess að borga en í dag getur fólk vissulega gert hið sama með því að setja meiri pening í stöðumælinn. Bolli segist þó engar áhyggjur hafa af þessu og segir að fólk þurfi þá alltaf að vera að fara út og fikta í klukkunni og hann sagði að í Danmörku væru háar sektir við því. Bolli segist spenntur að sjá hvernig tekst til á Akureyri en að vissulega sitji kaupmenn á Laugaveginum ekki við sama borð og kaupmann í Smáralind og Kringlunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×