Viðskipti innlent

Frekari fjárfestingar á döfinni

Stjórnendur FL Group hafa áætlanir um að styrka eiginfjárstöðu félagsins til þess að sækja enn frekar fram á við. Talið er líklegt að félagið gefi út nýtt hlutafé áður en langt um líður en fjölmörg verkefni eru til skoðunar. Félagið birti afkomutölur á miðvikudaginn þar sem kom fram að afkoman er borin uppi af góðum árangri í fjárfestingarstarfsemi. Fleiri samningar á flugvélaleigu eru í burðarliðnum að sögn stjórnenda FL Group. Yfirtökunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu af Eignarhaldsfélagið Oddaflug sé ekki yfirtökuskylt í FL Group vegna þeirra breytinga sem urðu á eignarhaldi í félaginu 1. júlí. Félagið Oddaflug er í eigu Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns FL Group. Nefndin kannaði annars vegar hvort Oddaflug hefði í huga að yfirtaka félagið í samráði við Kötlu Investments og Baug Group og hins vegar hvort um viðskiptaleg tengsl væru milli þessara aðila að þau kölluðu á yfirtökuskyldu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. "Niðurstaðan staðfestir það sem við töldum alltaf, að við værum ekki einn og sami hópur." Í Áliti Landsbankans, vegna hálfs árs uppgjörs FL Group, segir að eignarhlutir Hannesar, í Oddaflugi og Fjárfestingarfélaginu Prímusi, hafi um tíma farið yfir fjörutíu prósent og því hafi hann verið yfirtökuskyldur. Hannes hafnar þessari fullyrðingu og segir að samanlagður eignarhlutur félaganna hafi verið um 35 prósent eftir viðskipti með bréf FL Group hinn 1. júlí. Kauphöll Íslands hefur til skoðunar viðskipti í FL Group á miðvikudaginn áður en hálfs árs uppgjör félagsins var birt en þá hækkaði gengið um tæp fjögur prósent. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að kauphöllin fari yfir viðskiptin eins og ávallt þegar snöggar verðbreytingar verða. "Við ætlum að fara vandlega yfir viðskiptin. Það er hins vegar rétt að benda á það að verðið gekk til baka í gær. Eðlilegar skýringar geta verið fyrir þessum viðskiptum, að einhver hafi verið að veðja á afkoman rynni stoðum undir einhverjar verðhækkanir."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×