Viðskipti innlent

Ágæt afkoma Verðbréfaþings

Hagnaður Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf., sem á og rekur Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráningu Íslands, fyrstu sex mánuði ársins nam 36,7 milljónum króna og jókst um tæpar tvær milljónir frá sama tíma í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu segir að rekstrartekjur félagsins hafi aukist um 10,3 prósent frá sama tímabili í fyrra en rekstrargjöld jukust um 12,6 prósent.  Rekstrartekjur Kauphallar Íslands á fyrri árshelmingi námu 199,4 milljónum króna og rekstrargjöld 179,8 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var því 19,6 milljónir samanborið við 25,4 milljónir árið 2004. Hagnaður nam 21,7 milljónir króna. en var 25,5 milljónir á fyrri árshelmingi 2004, en reiknað var með sjö milljóna króna hagnaði í rekstraráætlun. Í heild voru rekstrartekjur Verðbréfaskráningar Íslands tæplega 111 milljónir króna. og rekstrargjöld 96 milljónir fyrir tímabilið janúar til júní 2005. Rekstrarhagnaður fyrstu 6 mánuði ársins nam því um 14,5 milljónum króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta nam hagnaður tímabilsins 15 m.kr. Í tilkynningu Eignhaldsfélagsins Verðbréfaþings segir enn fremur að afkoma fyrstu sex mánuði ársins hafi verið heldur betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bætt afkoma skýrist fyrst og fremst af því að rekstrartekjur hafi verið hærri en gert var ráð fyrir í áætlun en rekstrarkostnaður hafi verið í samræmi við áætlun fyrra hluta ársins. Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. var stofnað árið 2002 um rekstur Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands með það fyrir augum að auka hagræði í rekstri félaganna og auka samstarf þeirra. Félögin tvö eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×