Sport

Garðar mætir á Skagann í kvöld

Garðar Bergmann Gunnlaugsson hefur svo sannarlega verið á skotskónum að undanförnu og staðið sig frábærlega með liði Vals. Í kvöld heldur hann á Skipaskaga og mætir fyrrum samherjum sínum í ÍA og er líklega staðráðinn í að sýna sig. Það sama má segja um Baldur Aðalsteinsson sem verið hefur í fantaformi með Val í sumar og er fyrrum Skagamaður. Í liði ÍA má finna Ellert Jón Björnsson sem eitt sinn lék með Val. Leikurinn í kvöld er frestaður leikur úr elleftu umferð Landsbankadeildarinnar en hann hefst kl.19:15 og verður í beinni útsendingu Sýnar. Valur er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar en með sigri í kvöld geta Skagamenn komist í baráttuna um þetta annað sæti. ÍA hefur verið á siglingu að undanförnu og leikið flottan fótbolta en Valsmenn eru særðir eftir tap gegn Fram í síðasta leik og ákveðnir í að ná sigri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×