Erlent

Discovery loks lent

Taugar eru víða þandar þessa stundina, en geimferjan Discovery er í lokaaðflugi að Edwards-flugherstöðinni í Kaliforníu. Þangað var henni beint eftir að veður hamlaði lendingu á Flórída. Rétt fyrir klukkan tólf setti áhöfn Discovery bremsuflaugar ferjunnar af stað og hófu aðflugið inn í gufuhvolf jarðar. Logandi eldhnöttur sást á himnum yfir Bandaríkjunum í kjölfarið en í þetta skipti sundraðist hann ekki eins og þegar Columbia sprakk í aðflugi, heldur þeystist sem leið lá yfir Bandaríkin að flugbrautinni í Kaliforníu. Áhöfn Discovery verður væntanlega heimkomunni fegin, þar sem hún hefur nú verið tveimur sólahringum lengur í geimnum en upphaflega stóð til auk þess sem vandræði og skemmdir á ferjunni hafa valdið því að ferjuflotinn var settur í flugbann í kjölfarið. Allt var þetta sýnt beint í sjónvarpi þó að ekki hafi allir treyst sér til að horfa, ef allt færi hugsanlega á versta veg. Dagblöð vestra greina frá foreldrum sem ætluðu að gæta þess vandlega að börnin þeirra fylgdust ekki með atburðarásinni í beinni útsendingu. Upphaflega stóð til að lenda á Flórída eins og venjulega en veðurskilyrði þar þóttu ekki hagstæð. Það kostar NASA rétt um milljón dollara að ferja Discovery frá Kaliforníu til Flórída á ný. Þó að allt hafi gengið að óskum í morgun er ljóst að geimferðaáætlun Bandaríkjanna hefur beðið hnekki; geimáhugamenn óttast að þetta þýði frestingu á ferðalögum til mars og félagsvísindamenn segja vandræði geimskutlunnar hafa neikvæð áhrif á þjóðarsálina á tímum þegar hún má síst við því. Minnst er á sögulega yfirlýsingu Johns F. Kennedys, þáverandi Bandaríkjaforseta, þess efnis að Bandaríkjamaður gengi á tunglinu fyrir lok sjöunda áratugar síðustu aldar sem dæmi um hvernig geimferðir jukiu sjálfstraust Bandaríkjamanna á erfiðum tímum í Kalda stríðinu. Hrakfarir Discovery og það sem virðist ráðaleysi NASA hafa að sama skapi neikvæð áhrif nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×