Sport

FH heldur sínu striki

FH-ingar gefa ekkert eftir á toppi Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu og eru enn með fullt hús stiga eftir 2-0 sigur á KR í Kaplakrika í kvöld. Skagamenn sóttu þrjú stig í Árbæinn þar sem liðið sigraði Fylki, 2-3 og það var gríðarlegt fjör í Keflavík þar sem heimamenn gerðu 3-3 jafntefli við Þrótt þar sem bæði lið óðu í færum í hífandi roki og á hundblautum velli. Mikil spenna ríkti í loftinu meðal stuðningsmanna FH og KR, en Sigursteinn Gíslason þjálfari KR var að stjórna liðinu í sínum fyrsta leik. FH komst yfir á 34. mínútu með ágætu marki frá Auðuni Helgasyni sem skoraði með skalla eftir sendingu frá Jóni Þorgrími Stefánssyni. Og það var annar varnarmaður, vinstri bakvörðurinn Freyr Bjarnason bætti við öðru marki FH. Nokkur heppnisstimpill var yfir markinu sem kom eftir fyrirgjöf Tryggva Guðmundssonar og náði Freyr að koma boltanum í markið á fjarstönginni. Á Árbæjarvelli komust Fylkismenn yfir á 18. mínútu með marki frá Viktori Bjarka Arnarssyni eftir góða skyndisókn. Boltinn barst hratt fram á völlinn þar sem Eyjólfur Héðinsson lagði boltann á Guðna Rúnar Helgason sem framlengdi honum á Viktor sem skaut frábæru skoti í fjærhornið. Helgi Pétur Magnússon jafnaði fyrir ÍA á 23. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Helgi stökk manna hæst á nærstönginni og stýrði honum glæsilega í fjærhornið. Það var svo ekki fyrr en á 68. mínútu að Dean Martin kom ÍA yfir með glæsilegu marki. Hjörtur Hjartarson átti gott skot sem Bjarni Þórður varði út fyrir teig en þar var Dean Martin mættur og setti boltann efst í markhornið. Björn Viðar Ásbjörnsson jafnaði metin fyrir heimamenn á 81. mínútu þegar hann hirti frákast eftir aukaspyrnu Gunnars Þórs Péturssonar. Skagamenn voru ekki lengi að taka forystuna á nýjan leik og þeir geta þakkað aðstoðardómara leiksins fyrir það, Hans Scheving sem gaf til kynna að um vítarspyrnu væri að ræða á 84. mínútu þegar Hjörtur Hjartarson hitti ekki boltann í dauðafæri. Hjörtur þáði gjöf Hans Scheving með þökkum og skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Í Keflavík komust Þróttarar yfir þvert gegn gangi leiksins á 26. mínútu. Þar var að verki fyrrverandi Keflvíkingurinn Þórarinn Kristjánsson þegar hann fékk stungusendingu frá Halldóri Hilmis og kláraði vel. Hörður Sveinsson jafnaði fyrir Keflavík með skalla eftir undirbúning Hólmars Arnar Rúnarssonar á 33. mínútu. Jozef Maruniak kom Þrótti í 2-1 á 53. mínútu en hann kom inn á sem varamaður í hálfleik. Færeyingurinn Simun Samuelson sem kom inn sem varamaður, jafnaði fyrir Keflavík, 2-2 eftir mistök í vörn Þróttar en þetta var fyrsti leikur Simons með liðinu. Simon lagði svo upp annað mark þremur mínútum síðar sem Hörður Sveinsson skoraði af stuttu færi og heimamenn komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum, 3-2. En Þróttarar sýndu karakter og jöfnuðu á 85. mínútu en þar var að verki Haukur Páll Sigurðsson með skoti fyrir utan teig í hornið fjær. Eftir leiki kvöldsins er FH með 36 stig á toppi deildarinnar eftir leik kvöldsins, 9 stiga forskot á Val sem á leik til góða annað kvöld gegn Fram. ÍA lyfti sér upp í 3. sætið með 20 stig, jafnmörg og Keflavík en betri markatölu. Fylkir er í 5. sæti með 17 stig, KR í 6. sæti með 13 stig, Fram í 7. sæti með 11 stig, Þróttur lyfti sér úr fallsæti í bili með jafnteflinu og er í 8. sæti með 10 stig, eins og ÍBV sem er í 9. sæti en á leik til góða og Grindavík er á botinum með 9 stig en á leik til góða á önnur lið og tvo leiki til góða á Þrótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×