Innlent

25 ár frá embættistöku Vigdísar

Í dag eru 25 ár liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir tók við embætti forseta. Kjör hennar vakti heimsathygli, enda var hún fyrst kvenna í heiminum þjóðkjörin forseti. Fjórir voru í kjöri í forsetakosningunum árið 1980, þrír karlar og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur. Hún náði kjöri með um þriðjungi atkvæða. Vigdís var einstæð móðir þegar hún bauð sig fram og þótti það tíðindum sæta. Af blaðaumræðu frá þessum tíma má glöggt sjá að ekki fannst öllum það viðeigandi og mátti heyra margar úrtöluraddir sem fannst eiginlega ekki hægt að slíkur einstaklingur sæti Bessastaði og tæki á móti tignum gestum í nafni þjóðarinnar. Þetta viðhorf breyttist fljótt og Vigdís varð gríðarlega vinsæll forseti. Hún var endurkjörin án atkvæðagreiðslu arið 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét svo af embætti 1996. Vigdís ferðaðist mikið á forsetaárum sínum, hitti þjóðarleiðtoga um víða veröld og vakti athygli á Íslandi. Vigdís fagnaði sjötíu og fimm ára afmæli sínu fyrr á árinu, en hún er nú heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×