Skoðun

Úttekt á stöðu forsjárlausra feðra

Forsjárlausir foreldrar - Stefán Jóhann Stefánsson varaborgarfulltrúi Ýmislegt hefur verið gert til að bæta stöðu forsjárlausra foreldra í höfuðborginni. Eftir sem áður finnst mörgum ekki nóg að gert. Þar sem upplýsingar skortir um stöðu þessa hóps samþykkti velferðarráð Reykjavíkur í vor tillögu mína um að láta taka saman minnisblað um stöðu forsjárlausra feðra, en flestir forsjárlausir foreldrar eru feður. Í minnisblaði velferðarsviðs sem lagt var fram í velferðarráði 29. júní sl. kemur fram að á síðustu 5 árum hafi ýmislegt verið gert til þess að bæta stöðu forsjárlausra foreldra í borginni. Þannig hafa þeir feður sem hafa reglulega umgengni við börn sín nú möguleika á betra húsnæði ef þeir hafa rétt til þjónustu velferðarsviðs á annað borð. Auk þess hefur verið boðið upp á ýmiss konar endurhæfingu ef atvinnuleysi hrjáir þessa einstaklinga, eða ef þeir hafa þurft á langtímaþjónustu velferðarsviðs að halda. Þótt unnið hafi verið að því með markvissum hætti að því að bæta hag forsjárlausra feðra liggja þó ekki fyrir ítarlegar upplýsingar um stöðu eða högu forsjárlausra feðra eða mæðra. Kannanir hérlendis og erlendis hafa leitt í ljós að feður séu almennt ekki nægilega mikið með í myndinni varðandi uppeldi og stuðning við börn sín eftir skilnað eða sambúðarslit, eins og segir í minnisblaði skrifstofustjóra velferðarþjónustu velferðarsviðs, og að mikilvægt sé að styrkja tengsl feðra við börn sín þó svo að ekki hafi verið um hjónaband eða sambúð að ræða. Til þess að skoða þessi mál nánar samþykkti velferðarráð á fundi sínum í lok júní að gera úttekt á fjölda og stöðu forsjárlausra feðra í Reykjavík og setja af stað rýnihóp til að fá upplýsingar um viðhorf og skoðanir forsjárlausra feðra um hvað leggja eigi árherslu á í þjónustu við þá og börn þeirra. Á þann hátt verður leitast í auknum mæli við að finna úrlausnir sem taka mið af hagsmunum allra sem hlut eiga að máli.



Skoðun

Sjá meira


×