Sport

Þriðji sigur Valsmanna í röð

Matthías Guðmundsson tryggði Val 1-0 sigur í Grindavík með marki 14 mínútum fyrir leikslok en þetta var þriðji sigur liðsins í röð í Landsbankadeildinni. Valsmenn unnu góðan útisigur en þó alls ekki öruggan í Grindavík í gær. Heimamenn voru síst lakara liðið í leiknum og voru óheppnir að fá ekkert út út honum. Þeir sýndu oft á tíðum mjög gott spil sín á milli en tókst þó ekki að skora. Sóknarmenn liðsins voru mjög ógnandi en fundu ekki leiðina fram hjá Kjartani Sturlusyni sem var öruggur í marki heimamanna. Mounir Ahandour var hættulegur og komst tvívegis nálægt því að skora með skalla en í bæði skiptin varði Kjartan frá honum. Besta færi liðsins fékk Eysteinn Húni Hauksson sem skaut yfir úr dauðafæri strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks en hann kom inn sem varamaður í leikhléinu. Oft klikkaði þó hin svokallaða síðasta sending hjá liðinu. Valsmenn hafa oft spilað betur en í gær en þeir gerðu það sem þurfti. Þeir hafa sýnt í sumar að þeir eru duglegir við að refsa fyrir öll mistök mótherjana, hafa mjög vel spilandi lið sem sækir af krafti og er alltaf líklegt til að skora. Barátta liðsins skilaði sigri og þeir halda áfram að narta í hæla FH-liðsins. Eitt mark leit dagsins ljós í leiknum, Matthías Guðmundsson átti ekki í vandræðum með að skora á 76. mínútu þegar Óli Stefán Flóventsson gerði sig sekan um mistök. Eftir þetta mark spiluðu Valsmenn leikinn af miklu öryggi.  „Mér fannst við töluvert betri allan leikinn en vandamálið er að við náum ekki að skora. Það mátti ekki sjá á þessum leik að það væri tólf stiga munur á liðunum," sagði Magnús Þorsteinsson leikmaður Grindvíkinga. Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Vals var hressari í leikslok. „Það er mjög erfitt að spila á móti Grindavík á útivelli, en við vildum þetta. Vonandi hefur ströng dagskrá FH liðsins áhrif á þá."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×