Innlent

Persónuvernd krefst skýringa

Persónuvernd hefur krafið Landspítalann um skýringar á rafrænu sjúkraskrárkerfi spítalans og þeirri ákvörðun að hætta að takmarka aðgang að gagnagrunni spítalans, við ákveðnar sérgreinar. Allir læknar hafa nú aðgang að öllum sjúkráskrám á rafrænu formi, fyrir utan nokkra sjúkdómaflokka sem gætu fallið undir feimnismál. Fyrir nokkrum vikum var ákveðið að setja einungis aðgangshindranir við geðsjúkdóma, kynsjúkdóma, smitsjúkdóma og neyðarmóttöku nauðgana. Allir læknar spítalans hafa því eftir breytingarnar sjálfkrafa aðgang að sjúkrasögu fólks. Þetta var gert án samráðs við Persónuvernd, en haft var eftir forstjóra stofnunarinnar í frétt Stöðvar 2 á þriðjudag að rafræna sjúkraskráin væri komin fram úr lögunum. Persónuvernd hefur skrifað stjórn Landspítalans og krafist svara við því hvort þær upplýsingar sem fréttin á Stöð 2 byggði á hafi verið réttar. Sé svarið játandi spyr Persónuvernd hvaða heimild stjórn Landspítalans hafi til þess að nota upplýsingakerfi sem geri ráð fyrir að allir læknar spítalans hafi aðgang að sjúkraskýrslum allra sjúklinga, líka þeim sem þeir hafi ekki til meðferðar. Þetta er gert í ljósi þess að í lögum er skýrt kveðið á um að einungis þeir sem þurfi eigi að hafa aðgang að sjúkrasögu fólks. Þá vill Persónuvernd í framhaldi af þessu fá upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig tryggt sé að allar upplýsingar í sjúkraskrám séu einungis aðgengilegar þeim sem þurfi. Þá vill stofnunin vita hvernig hagað verði skrásetningu þeirra sem fara inn í skrárnarForstjóri Persónuverndar segist í bréfinu hafa bent á að óráðlegt sé að ráðast í gerð og hönnun rafrænnar sjúkaskrár nema sýnt sé fram á þörfina og síðan valin besta tæknilega lausnin. Þá þurfi að ráðast í lagabreytingar þessu samfara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×