Sport

Úrslit í Coventry

Borgaleikunum 2005 í Coventry á Englandi verður slitið í kvöld. Reykvísku þátttakendurnir hafa staðið sig mjög vel og hér koma úrslit dagsins:   Knattspyrna stúlkna: Reykjavíkurúrval stúlkna lék í undanúrslitum í morgun gegn heimastúlkum í Coventry. Staðan var jöfn 1-1 þegar venjulegum leiktíma lauk og var því gripið til framlengingar. Ekkert var skorað í framlengingunni og því gripið til vítaspyrnukeppni. Alls þurfti 8 umferðir í vítaspyrnukeppninni til að skera úr um hvort liðið myndi komast í úrslitaleikinn og náðu þær ensku að tryggja sér sigurinn að lokum. Í leik um 3.sætið léku stúlkurnar gegn skosku liði frá South Lanchasier. Þær töpuðu 1-0 í jöfnum leik þar sem reykvísku stelpurnar brenndu af víti. Reykvísku stúlkurnar enduðu því í 4.sæti á mótinu.   Knattspyrna drengja: Reykjavíkurúrval drengja lék í undanúrslitum í morgun gegn Aþenu frá Grikklandi. Strákarnir léku mjög vel og unnu 1-0. Í úrslitaleiknum léku þeir gegn Patras sem einnig eru frá Grikklandi. Leikurinn var mjög jafn og náði hvorugt lið að skora mark í venjulegum leiktíma né framlengingu. Það þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni sem reykvíska liðið sigraði 6-5. Þetta eru fyrstu gullverðlaun sem Reykjavíkingar vinna á Borgaleikum frá upphafi.   Hópurinn heldur heimleiðis á morgun mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×