Sport

Við munum halda okkar striki

Einn leikur verður á dagskrá Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í kvöld, þegar ÍBV tekur á móti Fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Bæði þessi lið hafa verið í miklu basli í sumar, ÍBV er í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins sex stig úr níu leikjum, en Framarar hafa aðeins náð í tvö stig af átján mögulegum í síðustu sex leikjum sínum eftir prýðilega byrjun á mótinu þar sem þeir unnu meðal annars Eyjamenn 3–0 í fyrri leik liðanna sem fram fór í Laugardalnum. Ólafur Kristjánsson, þjálfari Fram, segir sína menn staðráðna í að krækja í öll stigin í Vestmannaeyjum í kvöld. „Hásteinsvöllur hefur verið erfitt vígi fyrir lið til að sækja stig, en við ætlum okkur sigur engu að síður og það kemur bara í ljós í dag hvort við stöndum við það. Að mínu mati er ekki mikið af hlutum sem þarf að laga í leik liðsins til að fara að ná hagstæðum úrslitum, en það er eitt að tala um það og annað að gera það. Mér finnst líka kominn tími á að þeir sem telja sig stuðningsmenn liðsins fari að mæta á leiki og styðja við bakið á liðinu. Það tekst ekki að bæta árangur liðsins nema með sameiginlegu átaki og ég skora bara á alla þá sem telja sig stuðningsmenn Fram að fara að mæta á völlinn. Það er ekki stuðningsmönnunum að kenna ef liðið nær ekki árangri – en það getur aftur á móti verið þeim að þakka ef liðið nær að snúa við blaðinu," sagði Ólafur. „Við þurfum á öllu okkar að halda á lokasprettinum til að lenda ekki í verulegum vandræðum á þessu móti og það sem mér finnst við einna helst þurfa að laga er að skora meira af mörkum. Við ætlum okkur að taka á því, en ég mun ekki grípa til róttækra aðgerða til að breyta leik liðsins, ég legg upp með ákveðna hluti og við munum halda okkar striki áfram," sagði Ólafur ákveðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×