Innlent

Grænfriðungar gæða sér á hrefnu

"Ég er að selja 30 til 40 kíló af hval á viku," segir Úlfar Eysteinsson kokkur og meðeigandi á veitingastaðnum Þrír frakkar. Hann hefur boðið upp á hvalkjöt frá árinu 1989. "Ég hef tekið eftir því að fólk kemur hingað beint úr hvalaskoðun til að gæða sér á hvalkjöti. Nokkrum sinnum hef ég svo fengið fólk frá Greenpeace sem vill endilega prófa það," bætir Úlfar við. Sólmundur Oddsson innkaupastjóri Kaupáss segir hinsvegar að hvalkjötið hafi ekki staðið undir væntingum, það eigi sér mjög lítinn neytendahóp og erfitt sé að fá nýja neytendur. "Hinsvegar hef ég heyrt að til standi að leita nýrra leiða í markaðssetningu hvalkjötsins og það verður spennandi að sjá hvað gerist þá," bætir hann við. Sveinn Kjartansson, kokkur og meðeigandi í fiskbúðinni Fylgifiskar, segir að þeir hafi rokið til og boðið upp á hvalkjöt árið 2003, þar sem látið var í veðri vaka að allir væru vitlausir í hvalkjöt. Eftirspurnin reyndist hins vegar svo lítil að þeir hafi hætt að bjóða upp á það. Úlfar segir að salan hjá sér hafi einnig verið nokkuð treg þar til verðið var lækkað í fyrra sumar. Eftir það hafi eftirspurnin ekki látið á sér standa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×