Sport

Glazer eignast 75% hlut í Man. Utd

Bandaríski auðkýfingurinn Malcolm Glazer er sagður hafa eignast 75% eignarhlut í Manchester United. Á föstudag bárust þær fregnir að hann hafi klófest 74,81% hlutabréfa og væri við hinn mikilvæga 75% þröskuld sem gerir hann að einráði í félaginu. Þessar fregnir eru enn óstaðfestar en Reuters fréttastofan hefur þessar heimildir úr innsta hring. Reynist þær réttar eru þær áfall fyrir stuðningsmenn Manchester United sem óttast að miða- og vöruverð fari upp úr öllu valdi þar sem félagið verði stórskuldsett eftir viðskiptin. Glazer getur nefnilega yfirfært þær skuldir sem hann tók til að ná völdum yfir á félagið eftir að hann nær 75% eignarhlut. Honum er þá frjálst að endurskrifa lög og reglur félagsins og reka það nákvæmlega eins og honum sýnist. Búist er við að hann muni einnig afskrá félagið í kauphöllinni í London. Ekki varð mikið úr mótmælum stuðningsmanna um helgina þar sem Manchester United lék á útivelli gegn Southampton og fallslagur heimamanna í fyrirrúmi. En um næstu helgi leikur félagið til úrslita um enska bikarinn gegn Arsenal á Þúsaldarvellinum í Cardiff og má búast við stuðningsmennirnir láti meira fyrir sér fara þá, sérstaklega í ljósi þessara tíðinda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×