Innlent

Skuggagarðar stúdenta

Félagsstofnun stúdenta og Mótás undirrituðu í gær samning um byggingu nýrra stúdentagarða í miðborg Reykjavíkur. Garðarnir, sem hafa hlotið nafnið Skuggagarðar, munu rísa við Lindargötu þar sem Ríkið var áður til húsa. Húsin verða þrjú með samtals 98 einstaklingsíbúðum. Heildarkostnaður er áætlaður 800 milljónir króna, þar af lánar Íbúðalánasjóður 90 prósent. Afgangurinn er fjármagnaður með eigin fé Félagsstofnunar stúdenta. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun í ágúst á næsta ári og þær síðustu í ágúst 2007. Þá er verið að undirbúa í samráði við borgaryfirvöld frekari fjölgun stúdentaíbúða í miðbænum. Stefnt er að því að taka 200-300 nýjar stúdentaíbúðir í notkun í miðbænum á næstu þremur árum. Um svipað leyti og byggingu Skuggagarða lýkur munu höfuðstöðvar Félagsstofnunar stúdenta, Bóksala stúdenta, Stúdentamiðlun og skrifstofa Stúdentagarða flytja í nýtt Háskólatorg. Félagsstofnun á og rekur í dag stúdentagarða sem hýsa um 1.000 íbúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×