Innlent

Minntust rússneskra sjómanna

Aðeins fjórir rússneskir sjómenn af þeim þúsundum sem sigldu með skipalestunum í Norður-Íshafi í seinni heimsstyrjöldinni eru lífs og ferðafærir. Þeir voru allir mættir í Fossvogskirkjugarð í dag þegar afhjúpað var minnismerki um þá sem sigldu þessa leið og komu aldrei aftur. Minnismerkið var búið til að frumkvæði sendiherra Rússlands á Íslandi, Alexanders Rannikhs. Forseti Íslands og sendiherrann afhjúpuðu minnismerkið með aðstoð íslensks og rússnesks sjómanns sem sigldu með skipalestunum, en það var listamaðurinn Vladímír Surovtsév sem sem gerði merkið. Aðstandendum þeirra íslensku sjómanna sem fóru með skipalestunum en eru nú látnir voru síðan afhentir heiðurspeningar fyrir framlag þeirra. Nöfn skipanna sem fórust í þessum ferðum eru skráð á steina við minnismerkið og af fjöldanum fer ekki milli mála að þeir voru ófáir sjómennirnir sem þar létu lífið. Aðeins fjórir Rússar sem sigldu þarna norður fyrir eru enn á lífi og ferðafærir og þeir voru allir mættir í Fossvoginn í dag. Rem Évdkimov, einn þeirra, segir að þeir séu mjög heppnir að hafa ekki farist. En hvað fóru þeir margar ferðir? Anatolí Lívsjits segist hafa tekið þátt í 23 skipalestum. Þeir hafi vitað að skipalestirnar söfnuðustu saman við Ísland og þar gætu veikir og særðir sjómenn hvílt sig. Þess vegna hafi Íslendingar alltaf verið gestrisin þjóð í huga þeirra. Fjölmargir fórust í þessum ferðum eins og fyrr segir en fjórmenningarnir áttu þátt í að bjarga nokkrum.Valentín Drimluk segir að hann hafi bjargað sjómönnum úr skipalestinni PQ-17, en það hafi auðvitað verið afar erfitt á þessum slóðum. Mennirnir hafi verið ískaldir og mjög hraktir og meðal þeirra sjómanna sem hann hafi bjargað hafi einnig verið Íslendingar.  Björgólfsfeðgar styrktu ferð sjómannanna hingað og gerð minnismerkisins. Björgólfur Guðmundsson segir minnismerkið mjög fallegt að það sýni konu sem veifi sjómönnunum, en sumir þeirra hafi ekki komið aftur. Björgólfarnir hafa stundað mikil viðskipti í Rússlandi og segir Björgólfur eldri þá þakkláta því þar hafi þeim vegnað vel og tengslin við landið séu sterk. Þeir séu enn þá með töluverðan atvinnurekstur þar en það að kynnast rússnesku þjóðinni hafi orðið til þess að þjóðirnar hafi orðið nánari en áður og þeir feðgar vilji gjarnan styrkja sambandið milli rússnesku þjóðarinnar og Íslendinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×